Töluvert hefur hægst á nýjum lánveitingum lífeyrissjóða til sjóðsfélaga á síðustu misserum. Samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti á mánudag námu nýjar hreinar lánveitingar sem eru ný útlán að frádregnum upp- og umframgreiðslum 57,4 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 68,3 milljarða á sama tímabili í fyrra sem samsvarar um 16% samdrætti á milli ára. Til samanburðar námu hrein ný lán innlánastofnana 82,2 milljörðum á fyrstu átta mánuðum ársins og drógust saman um 2,7% frá sama tímabili í fyrra.

Sé litið til síðustu fjögurra mánaða hefur hægst enn meira á hreinum nýjum lánveitingum en þær námu 29,4 milljörðum frá maí til ágúst á þessu ári en voru 40 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Er því um 26,4% samdrátt að ræða milli þessara tímabila. Á síðustu 12 mánuðum til loka ágústmánaðar námu hreinar nýjar lánveitingar 87 milljörðum sem er 12,2% lægra en á sama tímabili fyrir ári. Þá hafa ný hrein lán lækkað um tæp 15% frá því þau náðu 12 mánaða hámarki sínu í nóvember á síðasta ári og eru nú á svipuðum stað og í júní árið 2017.

Hærra hlutfall verðtryggingar

Athygli vekur að þegar hlutfall verðtryggingar í hreinum nýjum lánum er skoðað kemur í ljós að hlutfall verðtryggingar er töluvert hærra í nýjum lánum lífeyrissjóðanna heldur en í nýjum lánum bankanna þó að hlutfall verðtryggingar hafi einnig lækkað í sjóðsfélagalánum. Það sem af er ári nema ný verðtryggð lán 34,4 milljörðum króna og hafa dregist saman um 34,4% milli ára en standa þó undir 59,9% hreinna nýrra lána á fyrstu átta mánuðum ársins en þau stóðu undir 76,7% á sama tímabili í fyrra.

Ný hrein óverðtryggð lán námu tæplega 23,1 milljarði á fyrstu átta mánuðum ársins og jukust um 45,5% frá sama tímabili í fyrra. Standa þau undir 40,1% af nýjum lánum en á sama tímabili í fyrra stóðu þau undir 23,3% nýrra lána. Eins og fjallað var um í síðustu viku jukust hrein ný óverðtryggð lán innlánastofnana um 39% á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tímabili í fyrra og námu 56,5 milljörðum á meðan ný verðtryggð lán drógust saman um 42% og námu 25,6 milljörðum. Hjá innlánastofnunum stóðu óverðtryggð lán undir 68,8% nýrra lána á fyrstu átta mánuðum ársins en hlutfallið var 48,1% á sama tímabili í fyrra.

Sé horft til síðustu 12 mánaða námu ný verðtryggð lán 50,8% milljörðum króna á tímabilinu og lækkuðu um 29,2% frá sama tímabili fyrir ári. Óverðtryggð lán námu 36,1 milljarði króna og jukust um 32,9% frá sama tímabili fyrir ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .