Svefnrannsóknafyrirtækið Nox Medical hagnaðist um 2 milljónir evra, jafnvirði 284 milljóna króna, á síðasta ári samanborið við 324 þúsunda evra hagnað á árinu 2017. Árið 2016 hagnaðist félagið um 1,97 milljónir evra.

Nox Medical hefur hlotið 50 milljóna króna styrk úr Tækniþróunarsjóði til að þróa og markaðssetja á alþjóðamarkaði þráðlausan snjallskynjara sem mælir heilarit og súrefnismettun í svefni Snjallskynjarinn er mikilvæg viðbót við þann tækjabúnað sem fyrirtækið er með á markaði til að gera svefnmælingar heima fyrir. Hingað til hafa heimamælingar verið gerðar án heilarits og því ekki hægt að greina nákvæmlega uppbyggingu og gæði svefns á einfaldan hátt.  Því hefur fólk þurft að dvelja næturlangt inni á sjúkrahúsi til að mæla heilarit í svefni og afar tímafrekt er að lesa úr niðurstöðunum.

„Verkefninu er ætlað að hlaða niðurstöðum mælinga upp í skýið og beita gervigreind til að lesa úr mælingunum. Fyrirtækið hefur gert tilraunir í samvinnu við vísindamenn og niðurstöður þeirra tilrauna sýndu að hægt er gera svefnmælingar í heimahúsum með heilariti með áður óþekktum afköstum,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical. Ef vel tekst til verður aðgangur að mikilvægu greiningartæki fyrir svefnvanda gerður ódýrari og greiðari.

„Nýsköpun á Íslandi er í miklum blóma og það er gríðarlega mikilvægt fyrir fyrirtækin í
landinu að geta sótt stuðning hjá Rannís, Tækniþróunarsjóði og með endurgreiðslu frá ríkinu
vegna rannsóknar og þróunar,“ segir Pétur Már. „Með slíkum stuðningi er hægt að byggja undir fleiri stoðir efnahagslífsins.“